Eru allir klárir fyrir innleiðingu gervigreindarlausna fyrir vinnuvernd?
17 október 2025
Gervigreind hefur á skömmum tíma leitt til víðtækra grundvallarbreytinga á öryggisferlum í iðnaði. Tækifærin til úrbóta eru fjölmörg: færri slys, bætt áhættustjórnun og vinnuumhverfi þar sem tæknilausnir vernda fólk í rauntíma.

Ráðgjafi SSG: í vinnuvernd, Ida Karlsson, skrifar um notkun gervigreindar í starfi sem tengist vinnuvernd.
Þessari nýju tækniþróun fylgja þó einnig nýjar áhættur; við verðum mjög háð tæknilausnunum, ábyrgðarsvið geta orðið óljós og kröfur um stafræna færni aukast mikið. Erum við tilbúin til að stíga næstu skref?
Hvernig kemur gervigreind við sögu í iðnaði samtímans?
Gervigreind í iðnaði er ekki lengur eitthvað sem er væntanlegt - heldur veruleikinn hér og nú. Í dag er gervigreind notuð á fjölmörgum sviðum til að hámarka framleiðslu, auðvelda viðhald og auka gæði, með háþróaðri gagnagreiningu, vélnámi og sjálfvirknivæðingu. En gervigreindartækni er líka æ oftar nýtt til að innleiða framfarir á sviði vinnuverndar og öryggis. Hér að neðan eru tilgreindir nokkrir spennandi möguleikar, en einnig áhættuþættir.
Ný tækifæri
Gervigreind, sé hún notuð á réttan hátt, getur verið öflugur liðsmaður þegar kemur að því að skapa öruggara starfsumhverfi:
- Að fyrirbyggja slys
Með því að greina mikið magn gagna geta gervigreindarverkfæri varað við aðstæðum sem áður var ekki var hægt að sjá fyrir - svo sem óeðlilegri hitnun í mótor eða óeðlilegar og hugsanlega hættulegar hreyfingar starfsfólks í verksmiðjunni. - Sjálfvirknivæðing hættulegra verka
Vélmenni geta tekið við verkum sem geta falið í sér hættu fyrir starfsfólk, svo sem meðhöndlun íðefna og vel má hugsa sér að nota dróna til að framkvæma skoðanir í þröngum rýmum eða sjálfkeyrandi lyftara til að minka hættu á slysum á fólki við árekstra. - Yfirsýn í rauntíma
Gervigreindarknúnar myndavélar og skynjarar geta greint hratt hættulegt atferli, svo sem að fara inn á hættusvæði, að tvær framleiðsluvélar séu í þann mund að rekast saman eða að starfsmaður sé ekki að nota áskilinn hlífðarbúnað.
En nýrri tækni fylgja einnig nýjar áskoranir
Þessi tækni vekur upp ýmsar spurningar. Innleiðing gervigreindarkerfa í starfi að öryggismálum vekur ýmsar spurningar, bæði hagnýtar og siðferðislegar.
- Á valdi tækninnar?
Hvað gerist ef kerfið metur stöðuna rangt? Eða ef skynjararnir bila skyndilega? Það getur verið hættulegt að treysta tækninni í blindni. - Siðferðislegar spurningar
Þegar myndavélar og skynjarar vakta hverja hreyfingu starfsmanna getur það virkað sem brot á persónuvernd. Í einhverjum tilvikum ýtir það undir streitu, fremur en öryggiskennd. - Skortur á stafrænni færni
Tæknivæðing öryggisferla gerir auknar kröfur til stafrænnar færni starfsmanna. Þetta getur valdið óöryggi hjá þeim sem ekki hafa haldið í við þróunina.
Önnur lykilspurning varðar dreifingu ábyrgðar. Ef gervigreindarkerfi leggur til aðgerð sem leiðir svo til þess að það verður slys - hver ber þá ábyrgðina? Stjórnandi kerfisins, fyrirtækið, yfirmaðurinn eða sá sem forritaði kerfið?
Nú um stundir er unnið að víðtækum lagabreytingum innan ESB, meðal annars hvað varðar lög ESB um gervigreind, sem kveða á um með hvaða hætti má nota gervigreind. En tækninni fleygir hraðar fram en lögin ná að bregðast við. Hér, rétt eins og við allar breytingar í rekstri, er mikilvægt að greina, meta og takast á við áhættuþætti, líka hvað varðar breyttar starfsaðstæður vegna innleiðingar gervigreindar.
Allt bendir til þess að samþætting mannlegs atgervis og gervigreindar muni aukast enn í framtíðinni. Tæknin mun fela í sér aukið sjálfsnám, verða enn samþættari við vinnuumhverfið og verða sjálfvirkari. Mannlegi þátturinn verður þó ævinlega til staðar og raunar má segja að það hafi aldrei verið mikilvægara en nú að finna jafnvægið milli tækni og manns.
Gervigreindarverkfæri eiga ekki að koma í stað aðgerða til að tryggja öryggi eða heilbrigðrar skynsemi, heldur vera viðbót við þetta. Með því að láta fólki í té réttu verkfærin og tryggja að allir kunna að nota þau er besta leiðin til að skapa frábært vinnuumhverfi.
Gangi ykkur vel að þróa frábæran og öruggan vinnustað með hjálp gervigreindarverkfæra!