„Vinnuvernd á ekki að vera hindrunarhlaup“
17 október 2025
Hjá SSG koma saman fulltrúar úr öllum greinum í tengslanetum og nefndum til að skiptast á þekkingu og reynslu, fylgjast með því sem er að gerast í kringum okkur og finna bestu lausnirnar til að mæta þeim sameiginlegu áskorunum sem eru til staðar innan greinarinnar. Sågverksnätverket er eitt þessara tengslaneta og meðlimir þerra samtaka hittust nýlega á tveggja daga fundi og heimsóttu sögunarverksmiðjuna Bollsta.

Christel Benke, SSG, ásamt Anders Grankvist, Södra Wood.
– Okkur gefst tækifæri til að miðla reynslu okkar og styðja hvert annað í daglegum störfum. Þetta færir okkur aukinn þrótt og innblástur í störfum okkar á sviði öryggismála, segir Anders Grankvist, yfirmaður vinnuverndar og öryggismála hjá Södra Wood og formaður Sågverksnätverket, sem eru samstarfsvettvangur timburframleiðenda .
Fróðlegar heimsóknir
Á vegum samtakanna eru bæði haldnir netfundir og vettvangsfundir í sögunarmyllunum í Svíþjóð. Á fundi Sågverksnätverket í september var komið að SCA Wood í Bollstabruk að vera gestgjafi. Yfirmaður öryggismála á þeim bæ, Gustav Röstlund, er meðlimur í samtökunum og á þessum fundi fór hann með gesti í skoðunarferð um sögunarmylluna og þá gafst gott tækifæri fyrir áhugaverðar umræður um mismunandi áskoranir og lausnir
Gustav Roslund fór með gesti í skoðunarferð um sögunarmylluna.
Að heimsækja starfsstöðvar annarra og kynna sér hvernig tekist er á við öryggismál á hverjum stað er mikilvægur hluti af samstarfinu. Í þessum geira eru vinnuslys óvenju tíð og því eru öryggi og vinnuvernd mjög ofarlega á dagskránni.
– Vinnuvernd á aldrei að vera einhver keppnisgrein. Á þessu sviði eigum við fyrst og fremst að hjálpa hvert öðru að ná betri árangri. Vettvangsfundir eins og þessi eru mjög gagnlegir og á hverjum fundi lærum við eitthvað nýtt sem getur nýst okkur á okkar vinnustað, segir Anders Grankvist.
Samstarf um öryggismál
SSG rekur fimm tengslanet í viðbót á mismunandi sviðum sem er ætlað að virkja einstaklinga til að stuðla að öruggari og sjálfbærari rekstri iðnaðarfyrirtækja. Christel Benke er verkefnastjóri vinnuumhverfis hjá SSG og ábyrgðaraðli gagnvart Sågverksnätverket, sem og öryggisnefnd SSG.
– Ég hef tekið þátt í þessu starfi allt frá upphafi, þegar SSG ákvað að hefja vinnu við að koma á fót sérstökum samráðsvettvangi fyrir timburiðnaðinn. Í áranna rás höfum við átt fjölmörg gagnleg samtöl og skipst á dýrmætri reynslu, sem hefur auðveldað þátttakendum að styrkja forvarnarstarf með því að innleiða aðgerðir til að fyrirbyggja slys. Mér finnst mjög ánægjulegt að SSG skuli koma að þessu starfi og fá bæði að heyra og sjá hvernig þátttakendur geta nýtt sér það sem er rætt á þessum vettvangi.