""

Öruggt vinnuumhverfi yfir sumartímann - hvernig tryggjum við öryggi afleysingastarfsmanna?

17 október 2025

Þegar sumarið nálgast kemur oft upp aukin þörf fyrir mönnun vegna sumarleyfa fastráðinna starfsmanna. Á þessum tíma fer fastráðið starfsfólk í frí, en framleiðslan þarf samt sem áður að halda áfram án truflana. Við þær aðstæður er mikilvægara en nokkru sinni að huga að vinnuvernd - einkum fyrir þau sem koma inn á vinnustaðinn sem nýliðar.

Þegar sumarfrístíminn gengur í garð verða afleysingastarfsmenn mikilvægur hluti af mannaflanum. Með því að tryggja þessum starfsmönnum rétta og viðeigandi upplýsingar sýnum við að við setjum vinnuvernd í forgang og að leggjum áherslu á velferð starfsmanna. Þetta skapar ekki aðeins traust heldur styrkir orðspor vinnustaðarins og gerir hann aðlaðandi til lengri tíma.

Vandaður undirbúningur

Til að afleysingastarfsmenn geti sinn sinni vinnu á öruggan hátt og stuðlað að góðum og skilvirkum starfsháttum þurfa þeir að fá góðan undirbúning. Þegar vinnuumhverfi er annars vegar þarf að taka til greina bæði líkamlegt öryggi, skýrt skipulag og opna og inngildandi vinnustaðarmenningu. Nýtt starfsfólk hefur yfirleitt ekki tileinkað sér sömu þekkingu á verkferlum, áhættuþáttum og öryggisreglum og fastráðnir starfsmenn og það þarf því að aðlaga miðlun upplýsinga og nýliðaþjáflun að því.

Skýrar upplýsingar - lykillinn að örygginu

Til að tryggja að allt fari vel af stað er mikilvægt að veita skýrar upplýsingar frá fyrsta degi. Slíkar upplýsingar ættu hið minnsta að ná yfir:

  • Ítarlega yfirferð á verkferlum á vinnusvæðinu
  • Fræðslu um hættusvæði og persónuhlífar
  • Kynning á vélum og verkferlum sem starfsmaður má búast við að vinna með
  • Hvert á að leita til að fá svör við spurningum eða ef slys eiga sér stað
  • Ef þess er gætt að gefa sér tíma til að kynna vinnustaðinn og verkefnin vel minnkar hættan á slysum, öryggistilfinning eykst og það verður auðveldara fyrir afleysingamanninn að setja sig inn í verkefnin.

Allir starfsmenn, hvort sem er laus- eða fastráðnir, eiga rétt á öruggu og góðu vinnuumhverfi. Stundum er þörf lausráðinna starfsmanna fyrir stuðning og handleiðslu vanmetin, en í rauninni er sú þörf oft enn ríkari en fastráðinna starfsmanna. Með því að hvetja til opinna samskipta, bjóða handleiðslu og hlusta vel á allar spurningar getum við skapað vinnustað þar sem öllum finnst þeir njóta áheyrnar og athygli.

Fyrirhyggja er mikilvæg

Til að skapa öruggt vinnuumhverfi fyrir afleysingastarfsfólk þarf að byrja vegferðina löngu áður en starfsmaðurinn mætir í vinnuna. Það er gert með því að:

  • Skipuleggja mönnun og afleysingar með góðum fyrirvara
  • Tryggja að fræðsluefni um verkferli og nýliðaþjálfun sé uppfært reglulega
  • Skipa ábyrga tengiliði fyrir nýju starfsmennina

... þannig verður líklegra að sumarið verði gott og öruggt og framleiðslan stöðug og vönduð - bæði fyrir lausráðna og fastráðna starfsmenn.

Samkvæmt reglugerð um kerfisbundið vinnuumhverfi (AFS 2023:1):

 ber vinnuveitanda að sjá til þess að allir starfsmenn hafi nægilega þekkingu á starfinu, og á áhættum sem því tengjast, til að hægt sé að forðast slys og heilsubrest og skapa ásættanlegt vinnuumhverfi.

Ef alvarleg áhætta fylgir vinnunni skulu skriflegar leiðbeiningar um hvernig á að sinna henni á öruggan hátt liggja fyrir. Leiðbeiningarnar eiga að henta markhópnum hverju sinni og í samræmi við nýjustu upplýsingar.

Vinnuveitandi getur aukið þekkingu starfsmanns á vinnuumhverfinu með því að bjóða upp á fræðslu og með því að gera þá virka þátttakendur í starfi að vinnuvernd. Oft þurfa starfsmennirnir að fá fræðslu þegar þeir taka að sér ný verkefni, þurfa að nota nýjan búnað eða aðferðir, skipta um verksvið eða fyrirtæki eða snúa aftur til vinnu eftir langa fjarveru.

Vinnuveitanda ber að tryggja starfsmönnum fræðslu og þekkingu á starfinu sem allra fyrst. Slík kynning ætti að veita starfsmanninum innsýn í

  1. Markvissa vinnu að aukinni vinnuvernd á vinnustaðnum
  2. Eigin verkefni og hvernig þau tengjast verkefnum annarra,
  3. Áhættur sem eru til staðar á starfsstöðvum og
  4. Hvert starfsmaðurinn getur leitað þegar hann eða hún hefur spurningar sem varða vinnuumhverfi. 

Skriflegum leiðbeiningum um viðbrögð þegar alvarlegt hættuástand kemur upp þurfa hugsanlega að fylgja munnlegar leiðbeiningar. Vinnuveitanda ber að tryggja að starfsmaðurinn hafi skilið leiðbeiningarnar. Áskilið er að leiðbeiningarnar séu aðgengilegar á vinnustaðnum.

Kynningarefni og leiðbeiningar ber að aðlaga svo það hæfi aðstæðum og getu starfsmannsins, t.d. aldri, reynslu, tungumálakunnáttu og eftir atvikum skertri færni.

Athugið

Reglugerð AFS 2012:3 um vinnuvernd barna er aðgengileg frá 1. janúar 2025, sem hluti af AFS 2023:2. um skipulag vinnuverndar - grunnskyldur aðila með ábyrgð vinnuveitanda.