""

Gervigreind - framtíðarsýn verður veruleiki í vinnuumhverfi

17 október 2025

Gervigreind er ekki lengur bara framtíðarsýn, heldur er orðin hluti af daglegu lífi í sænskum iðnaðarfyrirtækjum. Innan skamms verður gervigreind kannski jafn sjálfsagður hluti af vinnuumhverfinu og öryggishjálmurinn. Með aðstoð gervigreindar getum við fyrirbyggt slys, gert vinnuvistfræðilegar úrbætur og jafnvel greint snemmkomin merki um streitu. Þetta leiðir til þess að vinnuumhverfið verður bæði öruggara og sjálfbærara.

En hvað þýðir þetta í raun? Við ætlum að halda áfram að kynna okkur gervigreindarlausnir og skoða dálítið betur þær lausnir sem er verið að nota nú þegar - en ekki síður þær sem verða innleiddar von bráðar.

Gervigreind hefur þegar breytt miklu

Lausnir sem sjá fyrir viðhaldsþörf og greina áhættu

Gervigreind er þegar notuð í fjölmörgum iðnaðarferlum í Svíþjóð, þá einkum til að greina mynstur sem getur verið erfitt að greina með öðrum aðferðum. Skynjarar í vélum vara við þegar vart verður við titring eða hitastigssveiflur sem geta verið fyrirboði um slys. Með sama hætti geta gögn um hreyfingar á framleiðslulínum gefið til kynna að hætta á slysi sé að koma upp. Hverju hefur þetta skilað? Færri slysum og öruggara vinnuumhverfi.

Vinnuvistfræði í rauntíma

Með aðstoð myndavéla og skynjara sem starfsmenn bera á sér er hægt að greina hvernig starfsmenn bera sig að við að lyfta, beygja sig og vinna einhæf störf með endurteknum hreyfingum. Gervigreindarlausnir senda beina endurgjöf og ráðleggingar um vinnuaðferðir eða breytingar á starfsstöðinni - áður en álagsmeiðsl koma upp.

Sýndaröryggisfulltrúinn

Stafrænir aðstoðarmenn eru þegar komnir í gagnið og minna starfsmenn á að nota hlífðarbúnað, leiðbeina um öryggisferla og auðvelda skýrslugerð um tilboð. Þannig verður auðveldara fyrir alla að taka virkan þátt í öryggisstarfinu.

Öryggisgreiningar án persónugreinanlegra upplýsinga

Nýjar gervigreindarlausnir geta komið auga á áhættuhegðun eða hættulegar aðstæður án þess að safna og geyma persónuupplýsingar. Með þeim hætti er hægt að nota rauntímagreiningar án þess að starfsmenn upplifi það sem persónunjósnir. Reynslan hefur sýnt að vinnustaðirnir sem skila bestum árangri á sviði vinnuverndar eru þeir sem gera fulltrúa starsfmanna að virkum þátttakendum snemma í ferlinu.

Kannski er þetta nokkuð sem þið ættum að skoða nánar og það strax í dag?

Næstu skref - hvað er í vændum?

Stafræn afrit af vinnuumhverfinu

Sífellt fleiri sænsk fyrirtæki gera stafræn afrit af verksmiðjum sínum og starfsstöðvum. Þar er hægt að skoða hermilíkön fyrir hávaðastig, birtuskilyrði eða rýmingaráætlanir – og fínstilla þessa þætti áður en breytingarnar eru gerðar í raunveruleikanum.

Gervigreindartækni sem skynjar streitu

Með því að greina gögn úr skynjurum sem starfsmenn bera á sér eða gögn úr raddmynsturgreiningu getur gervigreindartækni greint snemmkomin merki um streitu eða kulnun. Þessi tækni er enn sem komið er á prófunarstigi en gæti innan skamms orðið algengt verkfæri sem nota má í forvarnarskyni gegn heilsubresti og veikindaforföllum.

Sjálfsnámskerfi

Í framtíðinni munu gervigreindarlausnir ekki aðeins geta komið með ráðleggingar heldur einnig gert breytingar á verkferlum með því að nota tilviksgögn frá viðkomandi fyrirtæki. Öryggiskerfi sem er sífellt að læra eitthvað nýtt og verða betra - á forsendum hvers vinnustaðar fyrir sig.

Stuðningur við geðheilbrigði

Með því að greina leitni í starfsmannakönnunum eða úr nafnlausum ábendingum geta gervigreindarlausnir varða mannauðsstjóra við ef andrúmsloftið á vinnustaðnum versnar. Þá er hægt að grípa til aðgerða snemma í ferlinu, áður en vandinn verður flóknari og erfiðari viðureignar.

Manneskjur + gervigreind = betra vinnuumhverfi

Eftir sem áður er mjög mikilvægt að tæknin leysi ekki mannlegt hyggjuvit af hólmi, heldur renni undir það styrkari stoðum. Gervigreind getur séð fyrir hættur, greint atferli og komið með tillögur - en það verða eftir sem áður manneskjur sem taka ákvarðanirnar. Þegar þetta tvennt virkar samhliða er hægt að skapa öruggt og traust vinnuumhverfi.

Í sænskum iðnaði er gervigreind er ekki lengur framtíðarsýn, heldur veruleiki. Tæknin er þegar farin að stuðla að fækkun slysa, bættum vinnuaðstæðum og snurðulausari öryggisferlum. Og þessari þróun fleygir hratt fram - næsta kynslóðir gervigreindarlausna gæti til dæmis greint streituvalda og þannig fyrirbyggt slys við stjórnun véla.

Í framtíðinni mun bætt vinnuumhverfi ekki aðeins tengjast því að vernda fólk gegn líkamlegri áhættu heldur einnig að byggja upp sjálfbæra, heilsusamlega vinnustaði þar sem tæknin auðveldar okkur að líða betur - á hverjum degi.