SSG er stuðningsaðili Geek Girl í Sundsvall
17 október 2025
SSG Standard Solutions Group fór í heimsókn til samtakanna Geek Girl Mini í skapandi rými þeirra, Makerspace,í Sundsvall.
Geek Girl Mini er verkefni þar sem stúlkur og stálp á aldrinum 10-14 ára fá öruggt og hvetjandi umhverfi til að gera tilraunir með tækni og skapandi lausnir. Geek Girl-verkefnið býður einnig upp á Micro-útfærslu sem er ætluð enn yngri stúlkum, eða 8-10 ára. Verkefninu er ætlað að styrkja sjálfstraust þeirra gagnvart tækni með hagnýtum verkefnum á sviði forritunar, lóðunarvinnu, þrívíddarprentunar og sköpunar.
– Markmiðið er að Geek Girl verði rými þar sem allar stúlkur og stálp geta fundið vettvang og samfélag, með sama hætti og til dæmis í íþróttastarfi. Við viljum skapa rými þar sem öll geta fengið að fást við tækni og vonum auðvitað að með tímanum hætti að vera þörf fyrir slík sérúrræði, segir Linda Hedblom, sem stýrir Geek Girl-verkefninu.
SSG er stoltur styrktaraðili verkefnisins og útvegar öllum þátttakendum Micro:bits, en það eru forritanlegar smátölvur sem kynna börn og unglinga fyrir töfraheimi tækninnar á skemmtilegan og hagnýtan hátt.
– Við viljum stuðla að því að fleiri stúlkur þori að prófa tæknilega vinnu og fái að kynnast þeim spennandi möguleikum sem þar er að finna. Geek Girl er frábær vettvangur fyrir þetta, segir Janette Hedin, yfirmaður upplýsingatækni hjá SSG.
Um kvöldið fengu krakkarnir svo að búa til „book nooks“ – sem eru pínulítil líkön sem er smeygt inn í bókarkápu og komið fyrir á milli bóka í bókahillu. Það er verkefni þar sem þær fá að fara í gegnum allt ferlið, frá skipulagningu til skissugerðar og samsetningar, og þetta kvöld urðu til mörg spennandi og skapandi verk. Það var málað og föndrað af kappi og einbeitingin í skapandi rýminu var mikil.
Við erum mjög stolt af því að hafa átt hlut í þessu skemmtilega kvöldi og hlökkum til að hvetja til frekari afreka í gegnum Geek Girl.