Umferð ökutækja á námusvæðum og í námugryfjum fylgja ýmsar hættur
9 október 2025
Á hverju ári koma upp fjölmörg hættuleg atvik sem tengjast akstri ökutækja á námusvæðum. Við stjórnun umferðar á slíkum svæðum er sérlega mikilvægt að huga að veðurskilyrðum, ástandi og virkni ökutækjanna, aðferðum við akstur og hraða, sem og blindsvæðum sem koma upp við akstur stórra ökutækja.
Almennt séð hefur slysum í námuvinnslu fækkað undanfarin ár. Líklegustu ástæður þess eru að framkvæmd námuvinnslu hefur breyst, sífellt fleiri verkþættir eru framkvæmdir með vélum og áhersla á öryggi hefur aukist verulega.
Meðal algengustu orsaka slysa í vinnuumhverfi sem þessu eru að renna til eða hrasa um eitthvað á vinnusvæðinu eða detta við að stíga upp í eða niður úr vinnuvélum. Aðrar orsakir slysa geta verið árekstrar ökutækja eða námuvinnsluvéla eða árekstrar á veggi í göngum eða grjótnámum.
Fyrir utan umferðaróhöpp eru íkviknun í gröfubúnaði, jarðskriður, grjóthrun og laust efni sem kastast til við sprengingar stærstu áhættuþættirnir við vinnu í opnum námugryfjum.
Umhverfis- og veðurskilyrði
Í opnum námagryfjum og grjótnámi þarf að taka miða af umhverfisaðstæðum og -kröfum: árstíðabundnar breytingar, birtuskilyrði og sveiflur í hitastigi hafa áhrif á starfsaðstæðurnar. Þegar rignir mikið eða kalt er í veðri geta flutningsleiðir og vinnusvæði orðið hál og svell myndast, en til að bregðast við því þarf að tryggja rétt viðhald og hálkuvarnir.
Vinnuumhverfi
Í opnum námugryfjum er vinnuumhverfið heldur ekki stöðugt og tímabundnir, uppbyggðir vegir fyrir vinnuvélar geta hindrað útsýni eða breytt venjubundnum akstursleiðum.
Ósléttur, ísaður eða snævi þakinn flötur getur valdið hættu við upp- og niðurstig í og úr vinnuvélum, við áfyllingar eða við skoðun á vinnuvél fyrir notkun.
Skert útsýni
Þeir sem aka vinnuvélum á námusvæðum þurfa að gæta þess vel að halda framrúðum og aðalljósum hreinum og hreinsa allan snjó eða móðu af þeim, sem og að nota veifur eða viðvörunarljós til að auka útsýnið frá ökutækinu.
Ökumenn vinnuvéla mega einnig búast við að rúður móðist aftur við akstur neðan jarðar, eða að þeir blindist af sólarljósi þegar ekið er út úr göngum.
Öryggisleiðbeiningar
- Áður en ekið er af stað verður að skoða ökutækið og hreinsa af því snjó, ísingu og móðu, sem og skoða t.d. hreinsivökva, vatn, hjólbarða, aðalljós og fjarskiptabúnað.
- Á meðan ökutækinu er ekið þarf að fylgjast með ástandi þess, t.d. með því að prófa hemla áður en ekið er niður ramp eða inn í skáhallandi göng þar sem ísing getur verið til staðar.
- Hindra skal slys með því að fylgjast vel með ástandi akstursleiða, tilkynna um allar hættur og takmarka akstur vinnuvéla í snjókomu, rigningu eða við önnur krefjandi veðurskilyrði, einkum fyrir þungavinnuvélar.
Hafðu eftirfarandi í huga
- Þegar þú nálgast vinnuvél sem er í gangi skaltu alltaf ganga úr skugga um að stjórnandi vélarinnar hafi séð til þín áður en þú ferð inn á hættusvæðið.
- Haltu ævinlega öruggri fjarlægð milli þín og vinnuvélarinnar - sem er oftast 30-50 metrar.
- Settu hæfilegar hraðatakmarkanir fyrir opnar námugryfjur til að auka öryggið.
- Öll ökutæki sem eru með vinnuvélum verða að vera búin skyndihjálparkassa og handslökkvitæki.
- Hleðslubúnaður á hjólum er oft notaður í gryfjum til að hlaða og flytja steina um skammar vegalengdir. Til að lágmarka hættuna á grjóthruni verður að hindra að óviðkomandi komi nálægt slíkum vélum þegar þær eru í notkun.
- Aðeins þjálfað starfsfólk með tilskilin starfsleyfi má nota og flytja hleðslubúnað á hjólum. Slíkan búnað má ekki nota til að flytja fólk.
Aðrar mikilvægar öryggisreglur
- Aldrei má fara úr vinnuvélinni á meðan hún er á hreyfingu.
- Forðast skal að láta vinnuvél vera í lausagangi.
- Þegar vinnuvél er lagt skal slökkva á mótornum og svissinum og setja stöðuhemil á.